Margrét Hrafnsdóttir
Sópran
Margrét Hrafnsdóttir lauk 8.stigi í söng og 8. stigi frá Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem kennarar hennar voru Sieglinde Kahmann, Hrefna Eggertsdóttir og Selma Guðmundsdóttir. Þaðan lá leiðin í Tónlistarháskólann í Stúttgart þar sem hún lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómi sem og diplómu í ljóðasöng. Hún hefur sótt fjölda námskeiða þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter og Christoph Pregardien. Hún hefur hlotið styrk hjá Wagnerfélaginu í Stúttgart og Hlaðvarpanum, Tónlistarsjóði og einnig hlotið Listamannalaun. Margrét hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Sviss, Ítalíu, Danmörku og Svíþjóð með efnisskrám sem spanna allt frá sjaldheyrðum verkum að þjóðlögum og margbreytilegri leikhús- og óperutónlist. Hún tekur einnig virkan þátt í tónleikahaldi hér á landi og hefur frumflutt lög eftir m.a. Ingibjörgu Azima, Oliver Kentish og Steingrím Þórhallsson.
2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara geisladiskinn „Hjartahljóð“, íslensk þjóðlög. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til ad láta semja fyrir sig verk, „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 eftir Ingibjörgu Azima. 2015 kom út diskurinn „Vorljóð á Ýli“ með þeim lögum í útsetningum fyrir óvenjulega kammersveit með fagotti, harmonikku, klarinetti, kontrabassa og sellói. Nú í október kemur út diskurinn „LOGN“ einnig með tónlist eftir Ingibjörgu. Margrét hefur einnig sungið hlutverk í íslenskum óperum, m.a hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Nornina í Ár og Öld, óperu eftir Þórunni Guðmundsdóttur.